*

föstudagur, 5. júní 2020
Innlent 13. mars 2020 20:33

Enn eitt höggið fyrir Icelandair

Lokun Danmerkur fyrir útlendinga kann að hafa áhrif á um 160 flugferðir Icelandair en bannið nær fram yfir páska.

Ingvar Haraldsson
Haraldur Guðjónsson

Lokun Danmerkur næsta mánuð fyrir komum útlendinga er enn eitt áfallið fyrir Icelandair. Lokunin mun væntanlega hafa umtalsverð samfélagsleg áhrif fyrir Íslendinga en um 11 þúsund Íslendingar eru búsettir í Danmörku.

Ekki á að hleypa útlendingum inn í landið nema mjög mikið liggi við eða það sé í opinberum erindagjörðum. Ekki á að leyfa fólki að heimsækja fjölskyldumeðlimi í landinu. Dönum verður áfram hleypt inn í landið en þeir eru hvattir til að ferðast ekki erlendis á næstunni. Áfram á að leyfa vöruflutninga til og frá landinu.

Bannið á að taka gildi í hádeginu á morgun og gilda í mánuð. Því verður Danmörku að óbreyttu lokað fram yfir páska, á tíma sem margir Íslendingar hafa í gegnum árin nýtt til ferða til Danmerkur. 

8% af flugi til Danmerkur

Tæplega 160 flugferðir eru á áætlun hjá Icelandair til Kaupmannahafnar næsta mánuðinn sem var um 8% af sætaframboði Icelandair áður en tilkynnt var um ferðabann frá Evrópu til Bandaríkjanna.

Icelandair hefur þegar fellt niður um 200 af um 490 flugferðum sem voru á áætlun í Bandaríkjunum á meðan ferðabann þeirra sem dvalið hafa á Schengen svæðinu til Bandaríkjanna á að vera í gildi. Áður en bannið tók gildi átti 27% af flugferðum Icelandair að vera til Bandaríkjanna. Icelandair hyggst áfram fljúga til New York, Chicago, Seattle og Washington DC á meðan bannið er í gildi. Væntanlega mun sætanýting versna til muna á tímabilinu.

Icelandair felldi afkomuspá sína úr gildi og felldi niður 80 flug í mars og apríl áður en ferðabannið til Bandaríkjanna var sett á. Icelandair hefur lagt áherslu á að félagið sé vel fjármagnað og geti vel staðið af sér tímabundin áföll. Félagið sé með um 30 milljarða króna í lausafé sem dugi til að fjármagna rekstur félagsins í nokkra mánuði.

Staðan verri en eftir 11. september

Í dag sagði Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrvals Útsýnar, í viðtali við Túrista að bókanir síðustu daga væru færri en dagana eftir að Geir H. Haarde bað Guð að blessa Ísland í október 2008.

Flugfélög víða um heim hafa varað við ástandinu í flugheiminum enda hafa hlutabréf flugfélaga hafa verið í frjálsu falli síðustu daga. Um 125 þúsund manns fljúga að jafnaði á dag milli Bandaríkjanna og landana á Schengen svæðinu.

Alex Cruz, forstjóri British Airways sagði að ástandið myndi hafa meiri áhrif fyrir flugfélög en áfallið eftir 11. september 2001. Norwegian felldi niður mörg þúsund flug í vikunni og hefur sagt upp helmingi starfsfólks tímabundið. Delta Airlines hyggst draga úr flugframboði um 40% á næstu mánuðum. American Airlines ætlar að draga úr alþjóðaflugi um þriðjung og Lufthansa hugðist fella niður um helming af öllu áætlunarflugi. 

Stikkorð: Icelandair Danmörk kórónuveira COVID19