Félög ensku úrvalsdeildarinnar eyddu samtals tæpum 1,2 milljörðum punda í leikmannakaup í félagaskiptaglugganum sem var lokað í síðustu viku. Samsvarar upphæðin um 180 milljörðum króna og er um að ræða 25% aukningu frá því í fyrra þegar met var einnig slegið. Þá námu útgjöld til leikmannakaupa 870 milljónum punda.

Mest var nettó eyðslan í sumar hjá Manchester-félögunum United og City, eða 169 milljónir punda og 141 milljón punda. Í kjölfarið fylgdu Chelsea með 93,4 milljónir og Arsenal með 88 milljónir.

Björn Berg Gunnarsson, fræðslustjóri hjá VÍB, hefur í mörg ár fylgst vel með fjármálahlið íþróttaheimsins og haldið fjölda fyrirlestra sem henni tengjast. Hann segir að helsta ástæðan fyrir aukinni eyðslu í sumar sé nýr sjónvarpssamningur úrvalsdeildarinnar við bresku sjónvarpsstöðvarnar Sky og BT Sports sem færir deildinni rúma fimm milljarða punda í tekjur fyrir næstu þrjú tímabil. Að auki fær deildin um þrjá milljarða punda í tekjur frá erlendum sjónvarpsstöðvum fyrir sama tímabil.

„Þetta er tæp 70 prósenta aukning frá síðasta samningi og er svo mikill áhrifavaldur vegna þess hve sjónvarpssamningurinn er ráðandi í rekstri félaganna,“ segir Björn. Á Englandi stóli félögin mun meira á sjónvarpstekjur en í flestum öðrum deildum.

Mikill jöfnuður í deildinni

Björn telur að félögin muni verja dágóðum hluta aukinna sjónvarpstekna í kaup á leikmönnum og hærri launagreiðslur. Í sögulegu samhengi hefur beint samband verið á milli aukinna sjónvarpstekna og aukins launakostnaðar og rennur ágóðinn því að hluta til leikmanna. Þar að auki skiptast tekjurnar mun jafnar á milli félaga deildarinnar en þekkist annars staðar.

„Við erum að sjá þá breytingu núna að minni félögin í deildinni hafa fjárhagslegan styrk til að bjóða í sömu leikmenn og stærstu félögin í öðrum deildum. Það er tiltölulega nýtt og kemur til vegna þess að dreifireglan í ensku úrvalsdeildinni á þessum peningum er tiltölulega jöfn,“ segir Björn. Á Englandi renna tekjurnar til deildarinnar og hún dreifir þeim síðan til aðildarfélaganna. Hefur þetta jafnaðarkerfi án vafa bætt hlut smærri félaganna á kostnað þeirra stærri.

„Þetta gagnast auðvitað litlu félögunum langmest því það eru ekki Watford og Burnley sem valda auknum áhuga á ensku úrvalsdeildinni. Það eru stærstu liðin sem skila þessum tekjum en þær dreifast síðan tiltölulega jafnt svo allir njóta góðs af.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .