Ekki er tímabært að tala um bólumyndun á fasteignamarkaði. Þetta er niðurstaða greiningardeildar Arion banka sem skoðað hefur tengsl langtímaleitni og verðs á fasteignamarkaði í því skyni að fá hugmynd um þróunina. Greiningardeildin segir hækkanir á fasteignamarkaði nú dæmigerðar fyrir markað í bata.

Þrátt fyrir að ekki séu sýnileg merki um bólumyndun vekur greiningardeildin athygli á gjaldeyrishöftum og öðrum þáttum sem geti aukið hættu á að eignaverð hækki umfram það sem eðlilegt getur talist.

Á meðfylgjandi myndskeiði má meðal annars heyra Ásdísi Kristjánsdóttur, forstöðumann greiningardeildar Arion banka, ræða þessa áhættuþætti.

Markaður í bata

Sjá má samband fasteignaverðs og langtímaleitni á eftirfarandi mynd, annars vegar í eignaverðsbólunni sem myndaðist í kringum netbóluna um síðustu aldamót en hins vegar í eignaverðs- og lánsfjárbólunni sem eftirminnilega sprakk við efnahagshrunið 2008. Greiningardeildin telur þetta samband enn ekki gefa til kynna bólumyndun heldur segir fasteignaverðshækkanir undanfarinna missera dæmigerðar fyrir markað í bata.

Fasteignaverð og langtímaleitni á Íslandi
Fasteignaverð og langtímaleitni á Íslandi

Útlán ekki aukist

Í skýrslu greiningardeildar er bent á að hækkandi eignaverð haldist gjarnan í hendur við almenna útlánaaukningu í hagkerfinu. Að teknu tilliti til verðlags- og gengisþróunar hafi útlán hins vegar ekki vaxið síðustu fjögur ár enda hafi fjármálaleg skilyrði heimila frá hruni verið erfiðari en áður og strangari kröfur gerðar um greiðslumat og eigið fé í fasteignakaupum. Þróun fasteignaverðs hefur hins vegar nokkurn veginn haldist í hendur við aukin umsvif í hagkerfinu eins og sjá má á eftirfarandi mynd.

Samspil umsvifa í hagkerfinu og húsnæðisverðs
Samspil umsvifa í hagkerfinu og húsnæðisverðs