Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði á Alþingi í dag að ekki væri búið að tímasetja skattalækkanir á fyrirtæki á kjörtímabilinu. Í stjórnarsáttamála ríkisstjórnarinnar kemur fram að stefnt skuli að þeim á kjörtímabilinu. "Frekari tímasetningar liggja ekki fyrir á þessu stigi," sagði ráðherra meðal annars.

Þetta kom fram í svari ráðherra við fyrirspurn Rósu Guðbjartsdóttur, varaþingmanns Sjálfstæðisflokks.

Geir sagði að það væri þó vissulega áleitin spurning, við núverandi aðstæður, hvort ekki væri rétt að lækka skatthlutfall fyrirtækja. "Það er til skoðunar eins og margt fleira," sagði ráðherrann.