Ríkisendurskoðun telur að framkvæmd fjárlaga á árinu bendi ekki til þess að setning nýrra laga um opinber fjármál hafi enn sem komið er aukið til muna festu í fjármálastjórn landsins. Á vef Ríkisendurskoðunar segir að ljóst sé að ráðuneytin fylgist vel með þróun útgjalda þeirra fjárlagaliði sem undir ráðuneytin heyra og séu almennt vel upplýst um ástæðu frávika. Þau virðist hins vegar frekar bregðast við umframútgjöldum með því að fara fram á auknar fjárheimildir í stað þess að grípa til markvissra sparnarráðstafana.

Einn megintilgangur laga um opinber fjármál nr. 123/2015 var að stuðla að meiri fastheldni við fjárhagsáætlanir ríkisins og forðast þannig breytingar á settum fjárlögum. Að mati Ríkisendurskoðunar á enn eftir að koma í ljós hvort ráðstafanir á borð við aukna möguleika á tilfærslum milli fjárlagaliða og meiri notkun varasjóða, nái að koma í stað fjáraukalaga. Bent er á að framlög til varasjóða í fjárlögum eru lægri en lög um opinber fjármál heimila. Þá hefur tíðni Alþingiskosninga gert ríkisstjórnum erfiðara fyrir með að fylgja í hörgul þeim tímasetningum og verklagi sem nýju lögin gera ráð fyrir.