Atvinnuleysi stendur í stað og starfandi fækkar samkvæmt tölum sem Hagstofan birti í morgun. Atvinnuleysi var 2,6% á þriðja ársfjórðungi og óbreytt frá sama fjórðungi í fyrra. Tölurnar benda til þess að ekkert hafi dregið úr slakanum á vinnumarkaði þrátt fyrir mikinn hagvöxt á þessu og síðasta ári. Framleiðnivöxtur er nærtækasta skýringin sem og nýting erlends vinnuafls. Ónýtt framleiðslugeta kann að hafa leynst í hagkerfinu við upphaf þessa hagvaxtarskeiðs sem nú nýtist og því hefur ráðningum ekki fjölgað að marki.

Atvinnulausir eru 4.300 manns samkvæmt könnuninni, en á sama tíma í fyrra voru atvinnulausir 4.400 manns. Fjöldi starfandi hefur dregist saman á milli ára og nú eru 158 þúsund manns starfandi samanborið við 163 þúsund í fyrra. Fjöldi vinnustunda hefur aukist lítillega en munurinn er of lítill til að draga megi ályktanir af honum. Þá hefur atvinnuþátttaka landsmanna dregist nokkuð saman frá því í fyrra.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka