*

þriðjudagur, 29. september 2020
Innlent 20. júlí 2018 19:04

Enn engin lausn í sjónmáli

Enn er engin lausn í sjónmáli í kjaradeilu ljósmæðra. Heilbrigðisráðherra segir ríkið hafa teygt sig mjög langt.

Ritstjórn
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, segir það umhugsunarefni að félagskonur Ljósmæðrafélagsins fái ekki tækifæri til að taka afstöðu til miðlunartillögu ríkissáttasemjara.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Kjaradeila ljósmæðra stendur nú sem hæst, en kjaranefnd ljósmæðra hafnaði í gær miðlunartillögu ríkissáttasemjara. Formaður samninganefndar ljósmæðra sagði við það tilefni í samtali við RÚV að þess hefði verið farið á leit við ráðherra að leggja til 60 milljónir ofan á miðlunartillöguna, en ekki hafi verið vilji til þess.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, segir það umhugsunarefni að félagskonur í Ljósmæðrafélaginu hafi ekki fengið tækifæri til að taka afstöðu til tillögunnar, sem hún segir hafa verið skynsamleg, en hún segir ríkið hafa teygt sig mjög langt í deilunni.

Katrín Sif Sigurgeirsdóttir, formaður samninganefndar ljósmæðra, segir hinsvegar að í raun hafi þetta verið sama tilboðið í þriðja sinn.

Á miðnætti aðfaranótt miðvikudags síðastliðins hófst yfirvinnubann ljósmæðra, og í kjölfarið var meðgöngu- og sængurlegudeild lokað, og starfsemi hennar sameinuð kvenlækningadeild, ásamt því að framkvæmd fyrstu ómskoðunar var hætt.

Kjaradeilan hefur nú staðið yfir í 10 mánuði, og enn er engin lausn í sjónmáli.