Þó að liðnir séu tæpir þrír mánuðir frá því að kjarasamningar á almenna vinnumarkaðinum runnu út hefur enn engin umræða farið fram svo heitið getur um sjálfan launalið væntanlegra kjarasamninga í viðræðum Samtaka atvinnulífsins við verkalýðsfélögin. Kemur þetta fram í frétt Morgunblaðsins í dag .

Þar segir að kjaraviðræðurnar séu komnar í slíka sjálfheldu að reyndustu menn á vinnumarkaði muna ekki annað eins, en aðeins eru tveir virkir vinnudagar þar til fjölmenn verkföll skella á að óbreyttu um miðja næstu viku.

Þrátt fyrir að sáttatilraunir hafi reynst árangurslausar reyna forystumenn viðsemjenda að halda þræðinum með óformlegum samtölum þessa dagana en eftir því sem næst verður komist hafa þau ekki skilað neinu.

Þær viðræður sem hafa þó átt sér stað á umliðnum mánuðum hafa nær eingöngu snúist um sérmál einstakra félaga og hópa, um starfsmenntamál og nú síðast um tilboð Samtaka atvinnulífsins um breytingar á vinnutímaákvæðum og hækkanir launa gegn þeim breytingum. Landssambönd og félög innan ASÍ eru aftur á móti á einu máli um að ekki komi til greina að afgreiða þær sem hluta af kjarasamningum núna.