Viðræður milli Norðuráls og HS Orku um sölu á orku vegna álvers í Helguvík standa enn yfir. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins bendir ekkert til þess að samningar náist á milli aðilanna á næstu dögum eða vikum. Viðræður hafa staðið yfir frá því í byrjun þessa árs, eða allt frá því að gerðardómur úrskurðaði um að HS Orku væri skylt að afhenda Norðuráli ákveðið magn af orku. Umræddur samningur inniheldur þó marga fyrirvara sem nú er deilt um, þá helst orkuverð. HS Orka er enn sem komið er bundin af þessum samningi og getur ekki hafið viðræður við aðra aðila fyrr en búið er að leysa deiluna við Norðurál.