Kröfum Símans hf. á hendur Póst- og fjarskiptastofnun, Gagnaveitu Reykjavíkur, Sýn og Mílu var í gær hafnað af Héraðsdómi Reykjavíkur. Síminn þarf að greiða sjö milljónir í stjórnvalssekt vegna málsins auk 3,7 milljónir til Gagnaveitu Reykjavíkur í málskostnað. Vísir greinir frá.

Síminn krafðist þess einna helst að ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar um að leggja Símann um níu milljóna króna stjórnvaldssekt á félagið, vegna ítrekaðra brota á fjölmiðlalögum, yrði felld úr gildi. Síminn tapaði því máli en stjórnvaldssektin var hins vegar lækkuð um tvær milljónir króna og ber Símanum því að greiða 7 milljónir.

Sjá einnig: SKE sektar Símann vegna Enska boltans

Uppfært: Héraðsdómur ógilti þá niðurstöðu Póst- og fjarskiptastofnunar um að Símanum hafi borið að semja við Vodafone um afhendingu á ólínulegu sjónvarpsefni til dreifingar fyrir fjarskiptanet Vodafone. Símanum hafi þó borið að semja við Gagnaveitu Reykjavíkur um dreifingu sjónvarpsefnis síns yfir fjarskiptanet Gagnaveitunnar ásamt fjarskiptanets Mílu. Síminn hefur það til skoðunar að áfrýja niðurstöðu málsins til Landsréttar.

Málið má rekja til 1. október 2015 þegar Síminn stöðvaði dreifingu á ólínulegu efni Sjónvarps Símans fyrir kerfi Vodafone. Umrætt brot fól í sér að mati Póst- og fjarskiptastofnunar að Síminn hélt áfram að brjóta gegn 5. mgr. 45. gr fjölmiðlalaga eftir úrskurð PFS þess efnis í hitt í fyrra, með því að fjölmiðlaveita félagsins beindi viðskiptum viðskiptavina sinna að tengdu fjarskiptafyrirtæki, það er Símanum sjálfum, og þar með óbeint að dótturfélaginu Mílu.