Klær kreppunnar halda aðildarríkjum evrusvæðisins enn föstum þrátt fyrir að uppfærð mæling PMI-vísitölunnar gefi betri niðurstöðu en áður. Vísitalan sýnir í grófum dráttum hvernig pantanabækur iðnfyrirtækja líta út. Endurskoðaðar tölur hafa nú verið gefnar upp fyrir nýliðinn mánuð og stendur vísitalan í 47,9 stigum. Það er aðeins betri niðurstaða en bráðabirgðatölur gáfu til kynna en þær bentu til að þess að vísitalan færi niður í 47,3 stig.

Þegar vísitalan er undir 50 stigum er efnahagslífið að dragast saman.

Niðurstaðan nú er engu að síður verri miðað við janúartölurnar en vísitalan stóð þá í 48,6 stigum.

Chris Williamson , aðalhagfræðingur Markit, sem tekur tölurnar saman, segist hafa orðið fyrir vonbrigðum með nýjustu upplýsingarnar. Þær endurspegla engu að síður 0,2% samdrátt í landsframleiðslu á evrusvæðinu á fyrsta fjórðungi ársins, að mati Williamson.