„Við erum alltaf í sambandi við þá og fáum bæði svör og spyrjum spurninga," segir Indriði H. Þorláksson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, inntur eftir því hvort einhver endanleg niðurstaða sé komin í viðræðurnar við Breta og Hollendinga um Icesave.

„Við vonum að þetta leiði til niðurstöðu áður en langt um líður."

Þegar hann er spurður um hvað ágreiningurinn snúist svarar hann: „Menn eru ekki sammála um öll atriði, bæði tæknileg og önnur, en ekki er hægt að tala um að það sé um nein stór ágreininingsmál að ræða í þeim skilningi. Það tekur bara tíma að vinna úr þessu."

Hvenær fer þetta að skýrast?

„Ég veit það ekki, en ég vona að það taki ekki marga daga."

Sem kunnugt er samþykkti Alþingi Icesave-ríkisábyrgð í lok sumars með efnahagslegum og lagalegum fyrirvörum. Það var gert að skilyrð fyrir ábyrgðinni að Hollendingar og Bretar samþykktu fyrirvarana. Það hafa þeir enn ekki gert og hafa því staðið yfir viðræður við þá um mögulegar breytingar á þeim.

Eins og fram hefur komið í Viðskiptablaðinu snýst ágreiningurinn meðal annars um hvort taka eigi upp viðræður að nýju árið 2024, standi eitthvað út af láninu,  og um Ragnars Hall ákvæðið svonefnda og þar með til hvaða dómstóla eigi að leita ef ágreiningur verður um forgang í bú Landsbankans.

Því er ljóst að málið verður að fara fyrir Alþingi á ný verði gerðar tillögur um frekari breytingar á fyrirvörum þingsins. Ekki liggur fyrir hvenær af því verður.