Sveinn Ólafsson, framkvæmdastjóri verkfræðistofunnar Verkís, segir að enn sé skortur á verkfræðingum og öðru tæknimenntuðu fólki. „Á uppgangsárum bankanna var skortur á verkfræðingum, bæði vegna þess að bankarnir tóku til sín svo marga nýja verkfræðinga, en einnig vegna þess að nemendur fóru frekar í rekstrar-, stjórnunar- og peningahliðina í náminu en í þessar tæknilegu greinar eins og verk- og tæknifræði. Launin sem bankarnir buðu voru mjög há og það hafði sín áhrif.“

Sveinn segir þetta hafa lagast að einhverju leyti eftir hrun, en að enn sé skortur á tæknimenntuðu fólki á Íslandi. „Við útskrifum of fátt tæknimenntað fólk. Þetta hefur eitthvað lagast, en ekki eins mikið og maður hefði ætlað. Það er lægra hlutfall af okkar háskólastúdentum sem leggur stund á tækninám en víða annars staðar og það er miður.“ Til að bæta úr þessu segir Sveinn að koma verði meira lífi í geirann sjálfan, því ekki sé hægt að ætlast til þess að fólk læri eitthvað sem ekki er útlit fyrir að bjóði upp á góða vinnu. „Frumatriðið er að verkefnin séu til staðar og að þjóðfélagið sé líflegt. Því þarf að auka fjárfestingu í innviðum samfélagsins.

Nánar er fjallað um málið í ítarlegu viðtali við Svein í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum Tölublöð hér að ofan.