Saksóknari í Sviss hefur gefið út ákæru á hendur þýskum bankastarfsmanni sem sakaður er um að selja þýskum skattayfirvöldum upplýsingar um þýska viðskiptavini svissneskra banka.

Þjóðverjinn starfaði sem kerfisfræðingur hjá Julius Baer bankanum og var handtekinn á síðasta ári vegna gruns um trúnaðarbrot í starfi en jafnframt vegna grun sum peningaþvætti. Hann hefur játað sekt sína og því má búast við stuttum réttarhöldum yfir honum eftir því sem fram kemur á vef Reuters fréttastofunnar um málið.

Svissnesk stjórnvöld óskuðu eftir aðstoð þýskra yfirvalda vegna málsins þar sem annar Þjóðverji var talinn eiga aðild að málinu. Sá er sagður skattrannsóknarmaður en þýsk stjórnvöld hafa ekki orðið við beiðninni.

Eins og áður hefur verið fjallað um sæta svissnesk stjórnvöld nú mikilli gagnrýni fyrir að vilja ekki rjúfa hina þekktu svissnesku bankaleynd sem ríkt hefur í landinu í áratugi. Baráttan hefur verið hörðust við bandarísk skattayfirvöld sem hafa sakað svissneska bankastarfsmenn, m.a. þá sem starfað hafa í útibúum svissnesku bankanna í Bandaríkjunum, um að hjálpa viðskiptavinum sínum að skjóta fjármagni undan skatti í heimalöndum sínum. Frakkar og Þjóðverjar hafa einnig gengið hart gegn svissneskum stjórnvöldum vegna svipaðra mála og fyrir að hafa ekki fengið lista yfir franska og þýska viðskiptavini svissnesku bankanna.