*

miðvikudagur, 27. október 2021
Innlent 11. desember 2020 14:16

Enn eykst atvinnuleysi milli mánaða

Ríflega tuttugu þúsund einstaklingar voru atvinnulausir í nóvember sem gerir 10,6% atvinnuleysi. Mest á Suðurnesjum eða 22,8%

Ritstjórn
Samdráttur á Keflavíkurflugvelli hefur mikil áhrif á atvinnulífið á Suðurnesjum.
Kristinn Magnússon

Atvinnuleysi hérlendis jókst um 0,7 prósentustig milli mánaða og nam 10,6% í nóvember. Spár höfðu gert ráð fyrir 10,8% atvinnuleysi í nóvember en það var 9% í september og 8,5% í október. Frá þessu er greint í skýrslu Vinnumálastofnunar sem spáir því að atvinnuleysi aukist í desember.

Ríflega tuttugu þúsund einstaklingar voru atvinnulausir í lok nóvembermánaðar í almenna bótakerfinu og tæplega fimm þúsund og fimm hundruð í minnkuðu starfshlutfalli, samtals 26.354 manns. Samanlagt atvinnuleysi í almenna bótakerfinu og minnkaða starfshlutfallinu nam 12% í nóvember.

Rúmlega 3.900 hefðbundnir atvinnuleitendur höfðu verið án atvinnu í meira en tólf mánuði í lok nóvember samanborið við um 1.540 á sama tímabili árið áður. Atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara nam 24% en alls voru 8.553 erlendir atvinnuleitendur í atvinnuleysiskerfinu í lok nóvember.

Tvær hópuppsagnir bárust Vinnumálastofnun í Nóvember og alls komu inn 154 ný störf sem auglýst voru í vinnumiðlun hjá téðri stofnun í nóvember.

Atvinnuleysi jókst alls staðar á landinu. Mest mældist það á Suðurnesjum eða 22,8% í Nóvember og jókst um 1,6 prósentustig milli mánaða. Á Norðurlandi eystra jókst það úr 7,7% í október í 9,1% í nóvember.

Stikkorð: Atvinnuleysi