Heildarvelta innlendra greiðslukorta nam 72,7 milljörðum króna í janúar 2021 og skiptist þannig að velta debetkorta nam 34,2 milljörðum og velta kreditkorta 38,5 milljörðum, að því er fram kemur í kortaveltutölum Seðlabanka Íslands.

Velta innlendra greiðslukorta í verslun innanlands nam 62,9 milljörðum króna sem er 4,3 milljarða hækkun milli ára. Skiptist veltan þannig að velta debetkorta nam 30,6 milljörðum og velta kreditkorta 32,3 milljörðum.

Velta innlendra greiðslukorta í verslunum erlendis lækkaði aftur á móti um 4,8 milljarða frá fyrra ári og nam 8,1 milljörðum króna. Þá nam heildarvelta erlendra greiðslukorta á Íslandi 1,4 milljörðum króna, eða um 12,5 milljörðum lægri velta en í sama mánuði ári áður.

Jákvæð áhrif ferðatakmarkana á innlenda verslun

Í samantekt Rannsóknarseturs verslunarinnar kemur fram að heildarvelta greiðslukorta hafa dregist saman um 12% milli ára í janúar. Mestu munaði þar um erlenda kortaveltu sem dróst saman um 89% milli ára á meðan sú innlenda óx um 6%.

Fram kemur að ferðatakmarkanir hafi enn jákvæð áhrif á innlenda verslun Íslendinga. Neyslan dragist hins vegar saman um -24% samanborið við desember 2020 og nemur samdrátturinn 19.9 milljörðum, en líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um voru Íslendingar eyðsluglaðir um jólin .

39% aukning í áfengisverslun

Samkvæmt samantekt Rannsóknarseturs verslunarinnar nam heildarvelta greiðslukorta í verslunum (þá að þjónustu undanskilinni) 38 milljörðum í janúar 2021 og vex um 29% milli ára, eða um 8.6 milljarða króna.

Fram kemur að bæði hafi verið aukning í hefðbundinni verslun og í vefverslun. Hefðbundin verslun óx þannig um 7 milljarða, eða 25%, og vefverslun um 1,6 milljarða, eða 138%, milli ára. Af heildarveltu í verslun óx vefverslun úr 3% í janúar 2020 í 7% janúar 2021, sem er sama hlutfall og í desember 2020.

Vöxtur er í öllum helstu vöruflokkum heildarverslunar, fyrir utan bóka-, blaða- og hljómplötuverslanir sem lækka um 0.1 milljarð króna og tollfrjálsa verslun sem lækkar um 0.4 milljarða.

Mesta aukningin er í stórmörkuðum og dagvöruverslun, alls 3,4 milljarðar króna, eða um 26%. Þá jókst verslun í raf- og heimilistækjaverslunum um 0.8 milljarða króna eða sem nemur 57%, en í þeim flokki var hlutfallslega mest aukning á milli ára.

Næst mesta hlutfallslega aukningin á milli ára er í áfengisverslun sem vex um 0,6 milljarða króna eða um 39%. Ekki er víst hvort Íslendingar neyti í reynd meira áfengis en áður þrátt fyrir þetta, enda gæti verið um tilfærsla úr tollfrjálsi verslun og neyslu áfengis á börum og veitingastöðum að ræða.