Móðurfélag British Airways, IAG, hefur aflýst 75% flugferða sinna næstu mánuðina vegna fallandi eftirspurnar og víðtækra farbanna í tengslum við kórónufaraldurinn. BBC segir frá .

Lággjaldaflugfélagið EasyJet hefur auk þess sagt að koma kunni til þess að hætta þurfi notkun flestra flugvéla þess í bili vegna ástandsins, og aflýst „talsverðum fjölda flugferða til viðbótar“.

Þá hefur framkvæmdastjóri IAG, Willie Walsh, frestað starfslokum sínum sem taka áttu gildi í mánuðinum. Hann sagði bókaðar flugferðir hjá félaginu hafa dregist verulega saman síðustu vikur, og býst við að eftirspurn verði lítil langt fram á sumar.

Framkvæmdastjóri EasyJet biðlar til stjórnvalda um stuðning, og sagði evrópskan flugiðnað horfa fram á tvísýna tíma. „Það er ljóst að samhæfðar aðgerðir stjórnvalda mun þurfa til að tryggja að fluggeirinn komist af og geti haldið áfram starfsemi þegar þetta er yfirstaðið.“