Árið 2016 fengu 5.858 heimili fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og hafði heimilum sem þáðu slíkar greiðslur fækkað um 16,3% frá árinu áður. Frá árinu 2013 hefur heimilum með slíka aðstoð fækkað milli ára eftir að hafa fjölgað árlega frá árinu 2007. Breyting í fjölda heimila sem hljóta fjárhagsaðstoð hefur haldist í hendur við þróun á atvinnuleysi að því er kemur fram í frétt Hagstofu Íslands um málið.

Frá árinu 2015 til 2016 lækkuðu útgjöld sveitarfélaganna vegna fjárhagsaðstoðar um 792 milljónir króna eða 17,6%, en á föstu verðlagi lækkuðu þau um 19%. Meðalmánaðargreiðslur fjárhagsaðstoðar voru 134.486,- krónur og hækkuðu frá árinu á undan um 2.500 krónur eða 1,9%, en á föstu verðlagi hækkuðu þær um 0,2%. Árið 2016 var fjárhagsaðstoð greidd að meðaltali 4,7 mánuði, en 4,9 mánuði árið 2015.