Enn er mikill hugur í hjúkrunarfræðingum að fara utan til Noregs í vinnu og stefnir í manneklu í hjúkrun á Íslandi á næstu árum, að sögn Ólafs G. Skúlasonar, formanns Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Ólafur segir í samtali við Morgunblaðið að sprenging hafi orðið í umsóknum í íslenskra hjúkrunarfræðinga um starfsleyfi í Noregi. Frá byrjun árs og fram til september í ár hafi 427 íslenskir hjúkrunarfræðingar fengið starfsleyfi í Noregi.

Fjallað er um flutning Íslendinga utan til starfa í blaðinu í dag.

Það er jafnframt haft eftir Finnbirni A. Hermannssyni, formanni Byggiðnar, að félagsmenn sem fluttu frá landinu eftir hrunið hafi að litlu að hverfa á Íslandi. „Við teljum að straumurinn hafi náð hámarki en menn eru ekki farnir að koma til baka í neinum mæli. Ástæðan er sú að það eru engin langtímastörf hér í sjónmáli. Því miður sýnist mér íslensk fyrirtæki ætla sér að reyna að byggja ódýrt með því að manna iðnaðarmannastörf að stórum hluta með erlendu starfsfólki,“ segir hann.