Gengi bitcoin hefur fallið um 29% síðan að myntin náði hámarki sínu fyrir um mánuði síðan. Gengi myntarinnar er nú um 5,6 milljónir króna en það var um 7,9 milljónir um miðjan aprílmánuð.

Sveiflukennt gengi bitcoin veldur fjárfestum myntarinnar þónokkru hugarangri þessa dagana. Ekki virðist þurfa mikið meira til en tweet frá Elon Musk til þess að gengi rafmyntarinnar hrapi eða fari á flug. Til marks um það féll bitcoin um 14% á fimmtudaginn þegar að Elon Musk greindi frá því á Twitter að Tesla tæki ekki lengur við myntinni út frá umhverfissjónarmiðum.

Síðan þá hefur gengi myntarinnar lækkað um önnur 9%. Nýjasta lækkunin átti sér stað eftir að Musk virtist gefa það í skyn á Twitter að Tesla hefði selt bitcoinforða sinn. Musk ítrekaði síðar á Twitter að Tesla hafði ekki selt bitcoinforða sinn en skaðinn var þá þegar skeður.

Óstöðugleiki bitcoin hefur orðið til þess að margir sjóðstjórar hafa mælst gegnt fjárfestingum í bitcoin og hafa bent á að myntin hjálpi lítið við áhættudreifingu. Til marks um það lækkar gengi myntarinnar yfirleitt við lækkun hlutabréfa. Nýverið kallaði Verðbréfaeftirlit Bandaríkjanna fjárfestingu í myntinni spákaupmennsku og hefur stofnunin varað vogunarsjóði við glæfralegum fjárfestingum í myntinni.