Gengi hlutabréfa Vodafone hefur fallið um 2% í veltu upp á tæpar 60 milljónir króna frá því viðskipti hófust í Kauphöllinni í dag og stendur gengi hlutabréfanna í 28 krónum á hlut. Það er rétt rúmum 11% undir útboðsgengi bréfanna í aðdraganda skráningar þeirra í Kauphöll í desember í fyrra. Útboðsgengið var 31,5 krónur á hlut. Uppgjör Vodafone fyrir afkomuna á fyrsta ársfjórðungi var birt á miðvikudag í síðustu viku. Gengi hlutabréfanna hefur lækkað viðstöðulaust síðan þá eða um 14%.

Í nýlegu verðmati IFS greiningar á Vodafone sem vb.is birti í síðustu viku er virðismatsgengið 24,2 krónur á hlut og mælt með sölu hlutabréfanna. IFS Greining gaf verðmatið út í kjölfar birtingar uppgjörs Vodafone á fyrsta ársfjórðung. Þar er uppgjörið sagt hafa valdið vonbrigðum og verið undir spám. Markgengi eftir 9 til 12 mánuði er 29 krónur á hlut að mati IFS. Það er tæpum 3,6% yfir gengi hlutabréfa Vodafone í dag en um 8% undir útboðsgengi.