Olíuverðið fellur enn og lækkaði í dag um 2%. Olíverð hefur nú lækkað daglega síðan fyrsta maí og segja sérfræðingar efnahagssamdrátt helstu ástæðuna.

Í dag féll verðið niður í 96 dollara á tunnu. Í dag hafa niðurstöður kosninga í Evrópu auk tölfræði um bandaríska vinnumarkaðinn sem birtist í morgun ollið ýmsum vonbrigðum og má sjálfsagt rekja hluta verðlækkunar dagsins til þess.

Sádi-Arabía hefur undanfarið aukið olíuframleiðslu og virðist sem áhyggjur af minnkandi eftirspurn á heimsvísu ráði för fremur en tilraunir til að halda olíuverði háu. Aukin framleiðsla Sáda, sem eru stærstu útflutningsaðilar olíu, samhliða efnahagssamdrætti bendir til þess að olíuverð muni áfram fara lækkandi.