Atvinnuleysið heldur áfram að aukast og eru nú 17.604 skráðir atvinnulausir á landinu samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar. Þar af eru 11.784 skráðir án atvinnu á höfuðborgarsvæðinu, 7.668 karlar og 4.116 konur.

Suðurnesin hafa enn þann vafasama heiður að vera með mest atvinnuleysi á landsbyggðinni. Þar eru nú 1.859 atvinnulausir.

Á hæla þeim kemur Norðurland eystra með 1.570 atvinnulausa. Á Suðurlandi eru 1.034 atvinnulausir og Vesturland er í fimmta sæti með 568 atvinnulausa. Þá kemur Austurland með 466, Norðurland vestra með 189 og Vestfirðir reka svo lestina með 134 á atvinnuleysisskrá.