Icelandair flutti tæplega 111 þúsund farþega í maí sl., sem er 2% fjölgun á milli ára í maí. Þá hefur farþegum Icelandair fjölgað um 8% á milli ára fyrstu fimm mánuði ársins.

Þetta kemur fram í mánaðarlegum flutningstölum frá Icelandair Group sem sendar eru Kauphöllinni en heildarfjöldi farþega hjá Icelandair nemur rúmlega 416 þúsund það sem af er ári, samanborið við tæp 386 þúsund á sama tíma í fyrra.

Fjölgunin fyrstu fimm mánuði ársins telst athyglisvert í ljósi þess að í apríl sl. fækkaði farþegum um 17% á milli ára. Þá mátti helst rekja samdráttinn til eldsumbrotanna í Eyjafjallajökli en sem kunnugt er þurfti félagið að aðlaga leiðarkerfi sitt talsvert vegna þess.

Farþegum Flugfélags Íslands, sem jafnframt er í eigu Icelandair Group, heldur áfram að fækka. Í maí sl. flutti félagið um tæplega 21 þúsund farþega sem þýðir 33% fækkun farþega á milli ára í maí. Þá hefur farþegum Flugfélags Íslands fækkað um 12% á milli ára fyrstu fimm mánuði ársins. Í lok maí hafði félagið flutt tæplega 124 þúsund farþega, samanborið við tæplega 141 þúsund farþega á sama tíma í fyrra.

Fraktflug á vegum samstæðunnar heldur einnig áfram að dragast saman þrátt fyrir aukningu í mars sl. Í maí dróst fraktflug saman um 6% á milli ára en þannig nemur samdrátturinn í fraktflugi um 3% það sem af er ári.