Alls var 510 leigusamningum þinglýst á höfuðborgarsvæðinu í nóvember sl., sem er rúmlega 8% fækkun samninga frá því í október þegar 555 samningum var þinglýst.

Þá fækkaði leigusamningum jafnframt á landinu öllu um 10% á milli mánaða í nóvember samkvæmt tölum frá Þjóðskrá Íslands.

Fjöldi leigusamninga á höfuðborgarsvæðinu hefur leitað töluvert niður á við eftir því sem liðið hefur á haustið eftir nokkra fjölgun í sumar. Svipuð þróun átti sér stað á sama tíma í fyrra þó fjöldi leigusamninga síðla sumars hafi ekki verið jafn mikill og nú í sumar. Í september sl. var slegið met í fjölda leigusamninga þegar 1.553 samningum var þinglýst á landinu öllu, þarf af 868 á höfuðborgarsvæðinu.

Á myndinni hér að ofan sést þróun á fjölda leigusamninga á höfuðborgarsvæðinu sl. 2 ár þar sem sést hvernig samningum hefur fjölgað nokkuð yfir sumartímann en snarfækkað aftur seinna um haustið.

Ef horft er á landið í heild þá var 755 leigusamningum þinglýst á landinu öllu í nóvember sl., samanborið við 840 samninga í október. Þannig fækkað samningum sem fyrr segir um 10% á milli mánaða á landinu öllu en 1,2% á milli ára.

Fyrir utan höfuðborgarsvæðið var flestum samningum þinglýst á Suðurnesjum í nóvember, eða 90 samningum. Þá var 68 samningum þinglýst á Norðurlandi, 42 á Suðurlandi og 30 samningum á Vesturlandi.

Sem fyrr var fæstum leigusamningum þinglýst á Vestfjörðum, en aðeins 3 samningum var þinglýst þar í nóvember. Þá hefur aðeins 64 leigusamningum verið þinglýst á Vestfjörðum frá áramótum.

Fyrir utan höfuðborgarsvæðið, þar sem 6.440 samningum hefur verið þinglýst það sem af er ári, hefur flestum samningum verið þinglýst á Suðurnesjum, eða 1.116 samningum. Þá hefur 1.053 leigusamningum verið þinglýst á Norðurlandi þar sem af er þessu ári.