Gengissveiflur undanfarinnar viku og tal um ójafnvægi í íslensku hagkerfi erlendis virðist ekki hafa dregið kjarkinn úr útgefendum erlendra krónubréfa, segir greiningardeild Íslandsbanka.

Rabobank, einn stærsti útgefandi krónubréfa, stóð að nýrri útgáfu krónubréfa í gær að andvirði fimm milljarðar króna og er þetta fyrsta útgáfan eftir breytingar Fitch á horfum í lánshæfismati ríkissjóðs og gengislækkunina sem fylgdi í kjölfarið.

Útgáfa Rabobank er til eins árs, með gjalddaga 15 mars 2007. Greiningardeild Íslandsbanka gerir ráð fyrir umtalsverðri lækkun krónu fyrir þann tíma og almennt virðast væntingar á markaði hérlendis vera á þá lund að gengi lækki næsta haust og vetur.

TD Securities, umsjónaraðili útgáfunnar, spáir að krossgengi krónu og evru verði 78 næstu misseri. Það samsvarar í gengisvísitölu á bilinu 109-110, segir greiningardeildin.

"Há ávöxtun hérlendis virðist því enn vega þyngra en ótti við tap vegna gengishreyfinga hjá útgefendum og kaupendum erlendra krónubréfa," segir greiningardeildin.