Flugvélaframleiðandinn Boeing, sem þegar er sex mánuðum á eftir áætlun með að skila 787 Dreamliner vélum sínum, er kominn á fremsta hlunn með að tilkynna um enn frekari tafir. Talið er að þær kunni að valda því að fyrirtækið nái ekki að skila jafn mörgum vélum á fyrsta framleiðsluári og lofað hafði verið. Félagið hefur skuldbundið sig til að afhenda 109 vélar fyrir lok ársins 2009 og mun hugsanlega þurfa að greiða milljónir dollara í skaðabætur til flugfélaga, standi það ekki við þær skuldbindingar.

Í frétt Wall Street Journal kemur fram að vandamál Boeing séu margþætt. Erfiðlega hafi gengið að koma fyrstu vélinni í loftið, og nú stefni allt í að hún fljúgi ekki fyrr en í júní. Þá hafi verið örðugt að vinna bug á skorti á varahlutum í vélina. Búist er við tilkynningu með tímaáætlun frá fyrirtækinu innan tíðar.