Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing frestaði í gær, í fimmta sinn, fyrsta reynsluflugi 787 Dreamliner flugvélarinnar.

Þannig virðist hrakfallasagana með 787  engan endi ætla að taka en vélin er nú þegar orðin rúmlega tveimur árum á eftir áætlun.

Hlutabréfamarkaðir tóku illa í tilkynningu Boeing í gær og við lok markaða í New York hafði gengi hlutabréfa í Boeing lækkað um 9%. Þá hefur gengi bréfa í félaginu lækkað um 21% það sem af er ári.

Að sögn Reuters fréttastofunnar fór það helst fyrir brjóstið á fjárfestum að ekki skyldi gefin út nein tímasetning eða dagssetning um það hvenær vélinni yrði flogið í fyrsta sinn. Þegar talsmenn Boeing voru inntir svara við því í gær forðuðust þeir að nefna neinar tímasetningar.

„Við erum augljóslega mjög óþreyjufullir og viljum sjá vélina fljúga sem fyrst,“ sagði Scott Carson, yfirmaður farþegavélasviðs Boeing í samtali við Reuters.

„Það er þó mikilvægt að allir þættir séu í lagi og tilbúnir þegar hún fer í loftið.“

Það sem af er þessu ári hefur 45 787 Dreamliner vélar verið afpantaðar hjá Boeing. Það kemur þó ekki bara til vegna tafa á afhendingu heldur eru flugfélög út um allan heim að endurskoða áætlanir sínar og fjárfestingar. Rétt er þó að hafa í huga að um 850 vélar hafa verið pantaðar hjá félaginu.