Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga, segir verktaka enn vera á svokölluðu blautu svæði í göngunum vestan megin og því sé framvindan við borun ekki hröð í augnablikinu. Greint er frá þessu í Fréttablaðinu .

Þar kemur fram að göngin hafi lengst um 25 metra á viku síðustu vikurnar. Ekkert hefur verið borað austan megin síðan kalt vatn fyllti göngin þar og þá er stöðugt heitavatnsrennsli í göngunum vestanverðum.

„Um leið og við komumst úr þessu blauta svæði þá getum við grafið á meiri hraða en nú er gert,“ segir Valgeir í samtali við Fréttablaðið og bendir á að þegar best lét lengdust göngin um eitt hundrað metra á viku.

Hann telur að hægt verði að opna göngin í lok árs 2017.