Norðurál hefur áformað að reisa álver í Helguvík í langan tíma en fyrirtækið hóf undirbúning verkefnisins árið 2004. Álverið á að vera í fremstu röð í heiminum þar sem allur búnaður verður samkvæmt bestu fáanlegu tækni og starfsemin eins umhverfisvæn og kostur er á. Árið 2014 hefur álverið hins vegar ekki enn hafið starfsemi og ekki er útlit fyrirað það gerist á næstunni.

Norðurál undirritaði samning við Hitaveitu Suðurnesja (HS) í apríl 2007 um orkusölu til álversins í Helguvík. Samkvæmt samningnum átti HS að útvega Norðuráli raforku fyrir álverið í Helguvík, þar á meðal allt að 150MW fyrir fyrsta áfanga álversins sem miðaðist við 150 þúsund tonna ársframleiðslu. HS varð síðar skipt upp í HS Veitur og HS Orku, og tók síðarnefnda fyrirtækið yfir samninginn við Norðurál. Þegar samningurinn var undirritaður var áformað að fyrsta afhending orku til álvinnsluyrði árið 2010.

Fyrsta skóflustunga var tekin þann 6. júní 2008 og framkvæmdir hófust við byggingu álversins. En nú þegar sjö ár eru liðin frá undirritun samningsins milli fyrirtækjanna stendur álverið þó ekki enn fullbyggt, engin álvinnsla hefur átt sér stað og þar af leiðandi hefur Norðurál enga raforku þegið frá HS Orku. Samningurinn er samt sem áður enn í gildi og ákveðin pattstaða ríkir þar sem HS Orka hefur ekki heimild til þess að veita öðrum aðilum raforkuna á meðan.

Ágúst Hafberg, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Norðuráli, segir samninginn enn í gildi og skilur ekki hvers vegna HS Orka fer aftur í málaferli vegna málsins. „HS tók að sér að vera leiðandi í þessu verkefni og það er staðsett í Helguvík vegna þess að eigendur Hitaveitu Suðurnesja buðu fram orku í verkefnið. Þessi samningur er í fullu gildi og við viljum einfaldlega að þeir standi við hann,“ segir Ágúst og bætir því við að eigi verkefnið að fara af stað fljótlega þurfi eitthvert annað orkufyrirtæki að koma að því.

Nánar er fjallað um málið í Orkublaðinu sem fylgdi Viðskiptablaðinu 18. september 2014. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .