Kaupmáttaraukning á milli ára nú er sú hægasta síðan í febrúar, samkvæmt upplýsingum Greiningar Íslandsbanka. Hagstofan birti upplýsingar um launavísitöluna og kaupmátt launa í morgun. Þar kom fram að laun hækkuðu að jafnaði um 0,2% á milli mánaða í ágúst.

Greining Íslandsbanka segir í Morgunkorni sínu í dag að launaskrið virðist fremur lítið. Á móti hækki vísitala launa oft töluvert í september og geti svo farið að það verði raunin nú. Þá segir greiningardeildin að talsvert sterk fylgni hafi verið milli þróunar kaupmáttar launa og einkaneyslu síðustu misserin enda sé óhægara um vik með skuldsetta einkaneyslu en raunin var fyrir hrun. Hægari vöxtur kaupmáttar á þriðja ársfjórðungi geti verið vísbending um að vöxtur einkaneyslu muni verða tiltölulega hægur á fjórðungnum.

Greiningin segir:

„Útlit er fyrir að heldur dragi úr kaupmætti launa fram undir árslok. Við gerum ráð fyrir að vísitala neysluverðs hækki um 1,3% fram til ársloka. Ólíklegt er að mati okkar að launavísitala haldi að fullu í við hækkun neysluverðs fyrr en nýir kjarasamningar eru í höfn. Það er óvíst að samningar náist fyrir áramót, en eins gætu þeir orðið e.k. millileikur þar sem samið væri um tiltölulega hóflega hækkun launa og horft til nýrra samninga jafnvel innan árs. Ef það verður ofan á mun innlendur kostnaðarþrýstingur vegna launa jafnvel verða tiltölulega hóflegur á næstunni í samanburði við t.d. þróunina frá miðju ári 2011 fram til síðustu áramóta.“