Dægurverð á 95 oktana bensíni hækkaði um 33 dali/tonn á markaði í Rotterdam í gær. Tonnið kostar nú 993 dali og hefur það hækkað um 155 dali, þ.e. 18,5%, á aðeins einni viku. Ástæðuna má rekja til ástandsins í Líbýu sem þrýst hefur verði á olíu upp undanfarna daga.

Verð á dísel lækkaði hins vegar um 5,75 dali í gær og kostaði tonnið af dísel 946,5 dali í gær. Frá fimmtudegi í síðustu viku hefur heimsmarkaðsverð á dísel hækkað um 6,7%.

Í gær hækkaði tunnan af hráolíu af Brentsvæðinu um 11 sent og verð af hráolíu frá Texas og Mexíkóflóa (WTI) lækkaði um 82 sent eftir að hafa hækkað mikið í vikunni, um nær 10%.