Hlutabréfaverð Icelandair er á miklu flugi þessa dagana og er nú komið upp í 2,24 krónur eftir 3,7% hækkun í 667 milljóna veltu í dag. Play hækkaði einnig um 1,3% í 275 milljóna veltu sem er óvenju mikið fyrir flugfélagið sem er skráð á First North-markaðinn.

Gengi Icelandair er nú 84% yfir 1,22 krónu kaupgengi áskriftarréttinda sem þátttakendur í hlutafjárútboði Icelandair í september 2020 geta nýtt frá 10.-24. febrúar næstkomandi. Um er að ræða annan flokk áskriftarréttinda af þremur sem kemur til innlausnar vegna útboðsins. Hluthafar Icelandair nýttu áskriftarréttindi úr fyrsta flokknum fyrir 2,1 milljarð króna í ágúst síðastliðnum .

Festi hækkaði næst mest af félögum Kauphallarinnar eða um 1,7% í 707 milljóna veltu. Festi, sem skilaði ársreikningi eftir lokun markaða í gær, hagnaðist um 5 milljarða á síðasta ári en Krónan, N1 og Elko, dótturfélög Festi, skiluðu öll sinni bestu afkomu frá upphafi. Viðskiptablaðið sagði frá því í dag að fjárfestingafélagið Kjálkanes hefði keypt 1,6% hlut í Festi á liðnu ári.

Mesta veltan var með hlutabréf Arion banka sem hækkuðu um 1,3% í nærri tveggja milljarða króna viðskiptum. Arion skilaði einnig ársuppgjöri í gær en bankinn hagnaðist um 28,6 milljarða á síðasta ári.