Hráolíuverð hélt áfram að hækka á mörkuðum Asíu í nótt og fór verð á olíu af Brentsvæðinu í Norðursjó í 106,58 dali/tunnu en lækkaði svo niður í 106,36 dali. Hið sama gildir um hráolíu frá Texas (WTI) en hún hækkaði um 2% í Asíu í nótt og kostaði 95,45 dali/tunnu við lokun markaða.

Sem fyrr er ástæðan rakin til ástandsins í Líbýu en landið er 12. stærsta olíuútflutningsríki heims og olíukaupmenn hafa áhyggjur af því að útflutningur frá landinu stöðvist í kjölfar uppreisnarinnar þar.

BBC hefur eftir Fatih Birol, aðalhagfræðingi alþjóða orkustofnunarinnar IEA, að olíuverð sé komið á hættusvæði og verði hækkunin viðvarandi geti það hægt umtalsvert á efnahagsbata heimsins. „Heimshagkerfið er mun brothættara nú en árið 2008,“ segir hann með vísan til þess er olían hækkaði svo mikið síðast.