Hlutabréf hækkuðu í Evrópu dag, nú sjötta daginn í röð.

Að sögn Reuters fréttastofunnar má rekja hækkanir dagsins til hækkandi málm, olíu og koparverðs sem ýtir upp gengi viðeigandi framleiðslufyrirtækja.

FTSE 300 vísitalan, sem mælir helstu hlutabréfavísitölur í Evrópu, hækkaði um 1,6% í dag og hefur ekki verið hærri í tæpa tvo mánuði.

Hástökkvari dagsins var þýski bílaframleiðandinn Volkswagen sem hækkaði um 12% í dag eftir að annar bílaframleiðandi, Porsche jók hlut sinn í félaginu.

Porche átti um 42% hlut í Volkswagen en jók hlut sin í dag í 50,76% og stefnir að því að eignast um 75% síðar á þessu ári.

Námu- og orkufyrirtæki hækkuðu nokkuð í dag sem fyrr segir. Þannig hækkaði ArcelorMittal um 14%, Rio Tinto um 11% og Xstrata um 13% svo dæmi séu tekin.

Í Lundúnum hækkaði FTSE 100 vísitalan um 1,3%, í Amsterdam hækkaði AEX vísitalan um 2,9% og í Frankfurt hækkaði DAX vísitalan um 0,8%.

Í París hækkaði CAC 40 vísitalan um 1,1% og í Sviss hækkaði SMI vísitalan um 0,75%.

Í Kaupmannahöfn hækkaði OMXC vísitalan um 1,8%, í Stokkhólmi hækkaði OMXS vísitalan um 0,3% og í Osló hækkaði OBX vísitalan um 3,5%.