Olíuverð hefur hækkað um rúmlega tvo bandaríkjadali í dag og var tunnan komin í 97,22  dali um hádegi á staðartíma í New York. Þetta gerist í framhaldi lækkunar gengis á bandaríkjadal. Bandaríkjadalur hefur nú aldrei verið lægri gagnvart evru.

Venezuela og Iran lögðu það til á ráðsetefnu OPEC ríkja síðustu helgi að hætta að verðsetja olíuna í bandaríkjadölum. „Þeir fá oliuna okkar og láta af hendi verðlausan pappír," sagði Mahmoud Ahmadinejad forseti Íran á ráðstefnunni. Tillagan mætti mikilli andstöðu Saudi Arabíu. OPEC ríkin útvega um 40% þeirrar olíu sem seld er í heiminum. Ríkin munu hittast á ný á fundi í Abu Dhabi þann 5. desember næst komandi þar sem ákvarðanir verða teknar um birgðarframleiðslu fyrir fyrsta ársfjórðung næsta árs.

Nýlega fundust stórar olíulindir við suð-austurströnd Brasilíu. Olíufyrirtæki í eigu ríkisins, Petrobras, hefur rannsakað sjávarbotninn í rúmlega ár og hefur nú staðfest að þar kunni að vera hægt að nýta 5-8 milljarða tunna af olíu og gasi á næstu misserum. Sú olía mun þó líklega ekki koma á markað fyrr en eftir fimm ár og hefur því fundur hennar ekki mikil áhrif á heimsmarkaðsverð olíu í dag.