Olíuverð heldur áfram að hækka og komst verð á tunnuna í 112,48 dali um tíma á mörkuðum í New York í gær sem er nýtt met. Áður hafði olíutunnan farið í 112,21 dali.

Á mörkuðum í Lundúnum hefur Brent olían hækkað í dag og er nú komin í 110,25 dali.

Óveður í Mexíkó veldur áhyggjum af olíubirgðum en nokkrar skemmdir hafa orðið á olíustöðum þar í landi í gær og í dag að sögn fréttavefs BBC.

„Framboð af olíu er að mati margra ekki nóg þannig að það má ekkert út af bera,“ hefur fréttavefur BBC eftir viðmælanda.

Þá hækkar olíuverð gjarnan þegar fer að nálgast vorið en þegar sumarfríin byrja í Bandaríkjunum eykst eftirspurn eftir eldsneyti.

Þá hefur veiking Bandaríkjadals enn áhrif en eins og margoft hefur verið greint frá eiga fjárfestar það til að festa fé sitt í olíu þegar dollarinn lækkar.