Verðbólga á evrusvæðinu jókst um 1% í mars frá fyrri mánuði samkvæmt endurskoðuðum tölum sem evrópska hagstofan birti í morgun. Það var 0,1 prósentustigi meiri verðbólga í mánuðinum en bráðabirgðamat gaf til kynna. Þetta kemur fram í Morgunkorni Glitnis.

Verðbólga á ársgrundvelli var 3,6% í mars og hefur ekki mælst meiri á svæðinu í nærri 16 ár. Mikla verðbólgu um þessar mundir má rekja til hækkandi eldsneytis- og matvælaverðs, einkum á mjólkurvöru og hrísgrjónum.

Seðlabanki Evrópu leitast við að halda verðbólgu á evrusvæðinu sem næst, en þó undir, 2% viðmiði sínu og hefur bankinn haldið stýrivöxtum óbreyttum í 4,0% frá haustmánuðum síðasta árs til að vinna á vaxandi verðbólguþrýstingi. Hagvaxtarhorfur hafa versnað á evrusvæðinu að undanförnu en mikil og viðvarandi verðbólga dregur úr líkum þess að stýrivextir verði lækkaðir úr núverandi gildi á svæðinu á árinu.

Hæst var verðbólga í Slóveníu eða 6,6% en lægst í Hollandi, 1,9%.