Verðbólga í Bretlandi mældist 4,4% í júlí og hækkar frá því í júní þegar hún var 3,8%. Það þýðir að verðbólgan er nú tvöfalt meiri en verðbólgumarkmið Englandsbanka segir til um en það er 2%.

Frá þessu er greint á fréttavef BBC en fram kemur að vísitala neysluverðs hefur hækkað nokkuð umfram það sem gert var ráð fyrir eða um 13,7% á ársgrundvelli. Þá hefur verðbólga ekki hækkað jafn mikið milli mánaða frá því í janúar 1997.

Álitsgjafar BBC gera nú ráð fyrir að erfitt verði fyrir Englandsbanka að lækka stýrivexti á ný og búast þeir frekar við hækkun stýrivaxta. Í síðustu viku tilkynnti bankinn um óbreytta stýrivexti en þeir eru nú 5%.

Á meðan verðmæti fyrirtækja, húsnæðisverð og væntingavísitölur lækka virðist sem svo að lítið hafi slegið á verðhækkanir á neysluvörum, þá helst matvörum og eldsneyti.

„Þetta er vítahringur og það mun taka tíma að koma jafnvægi á þetta. En á meðan það gerist ekki heldur verðbólgan áfram að hækka,“ segir einn viðmælanda BBC.