Tyrkneska líran hélt áfram falli sínu í morgun og féll um 13% gagnvart Bandaríkjadal, og ríkisskuldabréf landsins hrundu í verði. Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, flytur ávarp um stöðu og fyrirætlanir landsins í efnahagsmálum seinna í dag. Bloomberg segir frá .

Vonir fjárfesta standa til þess að Erdogan muni reyna að ná sáttum við Bandaríkjastjórn og leggja blessun sína yfir hækkun stýrivaxta. Þeir virðast þó ekki hafa mikla trú á því sem stendur.

Samskipti NATO-ríkjanna tveggja hafa versnað til muna nýlega eftir að bandarískur prestur var handtekinn í Tyrklandi. Þá fékk Erdogan vald til að skipa seðlabankastjóra fyrir mánuði síðan, svo fjárfestar hafa litla trú á sjálfstæði bankans, og getu hans til að hækka vexti þvert á vilja Erdogan, sem þeir telja nauðsynlegt fyrir efnahag landsins.

Erkin Isik, ráðgjafi hjá Turk Ekonomi Bankasi AS, segir tilkynningu Erdogan nú á eftir ólíklega til að duga til að róa markaðinn. „Ef gengið helst í sama fari verður verðbólgan komin í 18% í september. Óbreyttir stýrivextir, 17,75%, eru því einfaldlega ekki nógu háir.“