*

mánudagur, 22. júlí 2019
Erlent 10. ágúst 2018 09:38

Enn hrapar tyrkneska líran

Tyrkneska líran féll um 13% í morgun. Fjárfestar hafa litla trú á stjórn Erdogan forseta á efnahagsmálum landsins.

Ritstjórn
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur sankað að sér æ meiri völdum frá því hann tók við sem forseti árið 2014.
AFP

Tyrkneska líran hélt áfram falli sínu í morgun og féll um 13% gagnvart Bandaríkjadal, og ríkisskuldabréf landsins hrundu í verði. Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, flytur ávarp um stöðu og fyrirætlanir landsins í efnahagsmálum seinna í dag. Bloomberg segir frá.

Vonir fjárfesta standa til þess að Erdogan muni reyna að ná sáttum við Bandaríkjastjórn og leggja blessun sína yfir hækkun stýrivaxta. Þeir virðast þó ekki hafa mikla trú á því sem stendur.

Samskipti NATO-ríkjanna tveggja hafa versnað til muna nýlega eftir að bandarískur prestur var handtekinn í Tyrklandi. Þá fékk Erdogan vald til að skipa seðlabankastjóra fyrir mánuði síðan, svo fjárfestar hafa litla trú á sjálfstæði bankans, og getu hans til að hækka vexti þvert á vilja Erdogan, sem þeir telja nauðsynlegt fyrir efnahag landsins.

Erkin Isik, ráðgjafi hjá Turk Ekonomi Bankasi AS, segir tilkynningu Erdogan nú á eftir ólíklega til að duga til að róa markaðinn. „Ef gengið helst í sama fari verður verðbólgan komin í 18% í september. Óbreyttir stýrivextir, 17,75%, eru því einfaldlega ekki nógu háir.“

Stikkorð: Tyrkland Erdogan