Gengi hlutabréfa bandarísa tæknirisans Apple hefur fallið um rúm 3,3% í framvirkum samningum á markaði og er það nú komið undir 400 dali á hlut á nýjan leik. Gengið hefur sveiflast talsvert síðasta sólarhringinn. Eftir að fyrirtækið birti uppgjör í gærkvöldi rauk það upp um 6% en seig niður á ný eftir fjárfestakynningu Tim Cook, forstjóra Apple.

Fram kom í uppgjöri Apple að hagnaður félagsins dróst saman um 20% á milli ára á fyrsta ársfjórðungi. Stjórnendur ætla eftir sem áður að nýta sjóði sína og greiða hluthöfum arð. Arðgreiðslur munu nema 100 milljörðum dala sem verða greiddar út á næstu tveimur og hálfu ári.

Eins og vb.is hefur greint frá í gegnum tíðina hefur gengi hlutabréfa Apple lækkað mikið upp á síðkastið. Það fór hæst í rétt rúma 700 dali á hlut í október í fyrra. Hall tók undan fæti eftir það og nemur gengisfallið síðan þá meira en 40%.