Áfram ríkir mikil óvissa um horfur í alþjóðlegum efnahagsmálum vegna hinnar þrálátu lausafjárkreppu sem nú ríkir. Þetta ástand mun vara fram á  mitt næsta ár að mati Greiningardeildar Landsbankans og ræður miklu um framvinduna hér heima.

Vöxtur umfram spár Greiningardeild Landsbankans gerir ráð fyrir að hagvöxtur í ár stefnir í 3%, langt umfram fyrri spár. Þar ræður mestu hratt vaxandi einkaneysla, tiltölulega hægur samdráttur fjármunamyndunar og ört vaxandi útflutningur. Hagvöxtur næstu ára verður knúinn af fjárfestingum hins opinbera og einkaaðila auk þess sem stóriðjuframkvæmdir hafa enn mikil áhrif. Greiningardeildin á þó von á að aukinnar varkárni gæti í stóriðjumálum og að fjárfestingin í heild vaxi hægar en áður var reiknað með. Á næsta ári spáum við 1% hagvexti, 3,5% árið 2009 og 2,5% árið 2010.

Stýrivextir í hámarki og verðbólgumarkmið innan seilingar í bili Stýrivextir hafa náð hámarki í 13,75% eftir að þeim var haldið óbreyttum í morgun að mati Greiningardeildarinnar og samkvæmt spá hennar skapast forsendur fyrir lækkun um mitt næsta ár. Lækkandi fasteignaverð gerir það að verkum að 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans næst tímabundið við lok næsta árs en verðbólga eykst síðan á nýjan leik. Í lok árs 2009 verður verðbólgan um 5,5% en fer svo hjaðnandi á árinu 2010.

Lækkun á fasteignamarkaði Umsvif á fasteignamarkaði eru enn mjög mikil þrátt fyrir hátt fasteignaverð og minnkandi kaupgetu í kjölfar umtalsverðrar hækkunar vaxta nýverið. Háir vextir og áframhaldandi óvissa á alþjóðlegum fjármálamörkuðum valda því að líkur á viðsnúningi á fasteignamarkaði eru meiri en áður. Greiningardeildin spáir 9% lækkun fasteignaverðs á næsta ári og að verð standi því sem næst í stað árið 2009. Eftir það fer fasteignaverð hækkandi á ný.

Hátt raungengi á næstu árum Krónan verður í veikingarfasa á næstu árum og verður gengisvísitalan nálægt 135 stigum í árslok 2010. Áfram má þó búast við miklum skammtímasveiflum sem tengjast háum vöxtum og spákaupmennsku á gjaldeyrismarkaði. Raungengi helst áfram hátt út spátímann að mati Greiningardeildar Landsbankans.

Endurskoðuð hagspá 2008-2010