Hagstofa Ítalíu tilkynnti ítalska þinginu á þriðjudaginn var að samdráttur hefði mælst á Ítalíu þriðja ársfjórðunginn í röð. Spár fjármálaráðuneytisins höfðu gert ráð fyrir að hagkerfið myndi taka við sér á ný á fjórðungnum.

Formaður ítölsku Hagstofunnar neitaði að nefna hversu mikill samdrátturinn var en hagtölurnar verða ekki opinberlega birtar fyrr en um miðjan nóvembermánuð. Fréttirnar koma í kjölfar tilkynninga frá spænskum yfirvöldum sem hafa lýst því yfir að hagtölur bendi til þess að kreppunni sé lokið þar í landi.

Aðgerðir ítalskra yfirvalda á síðustu tveimur árum er snúa að því að auka samkeppnishæfni landsins og draga úr ríkisútgjöldum virðast því ekki hafa skilað árangri en ríkisstjórninni hefur ekki tekist að standa við kröfu um fjárlagahalla undir 3%. Fjármálaráðherra Ítalíu, Fabrizio Saccomanni, lýsti því yfir í kjölfar nýjustu frétta að spá ráðuneytisins um hagvöxt á árinu sem líður sé nú neikvæð um 1,8% en ráðuneytið spáir 1,1% hagvexti á næsta ári.