Úrvalsvísistala OMXI10 lækkaði um 0,9% og stendur í 2.077 stigum en heildarviðskipti dagsins námu 1,1 milljarði króna. Fasteignafélögin lækkuðu talsvert, rétt eins og á föstudag í síðustu viku. Ekkert félag hækkaði í viðskiptum dagsins.

Öll þrjú fasteignafélögin lækkuðu í viðskiptum dagsins, mest lækkuðu hlutabréf Reita um 3,48% og hafa bréf félagsins lækkaði um ríflega 30% það sem af er ári. Reginn lækkaði um 3,18% og Eik um 2,93%. Lægst fóru bréf Eikar í 6,15 krónur í upphafi apríl fyrr á árinu. Hækkuðu þau svo í rúmlega 7,7 krónur en hafa verið á niðurleið síðan þá. Á föstudag í síðustu viku lækkuðu öll fasteignafélögin um ríflega 3%.

Mest lækkuðu samt hlutabréf Icelandair eða um 7,87% í einungis 445 þúsund króna viðskiptum og standa bréfin nú í 1,64 krónum hvert. Félagið náði samkomulagi við alla helstu hagaðila, þar á meðal flugvélaframleiðandann Boeing, á þriðjudagskvöldi í síðustu viku. Enn á eftir að birta nánari upplýsingar um fjárfestakynningu og síðan fyrirhugað hlutafjárútboð félagsins.

Mest velta var með bréf Arion banka, fyrir 214 milljónir króna og lækkuðu bréf félagsins um 1,58% og standa nú í 68,7 krónum hvert.

Krónan veiktist gagnvart öllum sínum helstu viðskiptamyntum. 0,5% gagnvart evrunni sem fæst nú á tæplega 163 krónur en pundið fæst á tæplega 180 krónur.