Kínverska Shanghai Composite hlutabréfavísitalan lækkaði um 3,52% í viðskiptum dagsins og endaði í 3.005,17 stigum. Í Hong Kong lækkaði Hang Seng vísitalan um 0,49%. Fjárfestar litu alveg framhjá nýjum tölum sem sýndu að útgjöld kínverska ríkisins jukust um 26% í ágúst frá sama mánuði í fyrra, en útgjöldunum var ætlað að styðja við kínverska hagkerfið sem hefur verið að hægja á sér undanfarna mánuði og misseri.

Eftirlitsaðilar hafa takmarkað mjög heimildir til skuldsettra hlutabréfakaupa og þá hefur nokkrum stærstu miðlurum landsins verið refsað fyrir meintar misgjörðir. Fjárfestar hafa því haldið sig til baka undanfarið og bíða nú vaxtaákvörðunar bandaríska seðlabankans, að því er segir í frétt BBC.

Í Japan hækkaði Nikkei vísitalan um 0,3% þrátt fyrir að væntingavísitala framleiðenda hafi lækkað í mánuðinum meira en í nokkrum öðrum mánuði það sem af er ári.