Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi hækkaði um 0,26% í rúmlega 1,4 milljarða heildarveltu á markaði og fór hún í 1.741,22 stig. Heildarveltan í markaðsvísitölu Gamma nam tæplega 4,4 milljörðum króna og hækkaði um 0,07% og stendur nú í 165,703 stigum.

Þar af námu skuldabréfaviðskiptin rúmlega 2,7 milljörðum króna og hækkaði skuldabréfavísitala Gamma um 0,02% upp í 335,508 stig.

Mest hækkun var á gengi bréfa Haga, eða um 1,95% í 193 milljón króna viðskiptum og fæst nú hvert bréf félagsins á 47 krónur. Næst mest hækkaði gengi bréfa TM um 1,51% í 162 milljóna króna viðskiptum og er gengi bréfanna nú 33,65 krónur.

Mest lækkun var svo á gengi bréfa Origo eða um 2,11% í 43 milljón króna viðskiptum. Gengi bréfa í Reginn Fasteignafélagi lækkaði næst mest, eða um 0,45% í 51 milljóna króna viðskiptum og stendur það nú í 22,25 krónum.