Leiðandi hagvísir Analytica lækkaði í apríl, fimmtánda mánuðinn í röð. Þetta kemur fram í frétt á vef ráðgjafarfyrirtækisins þar sem þessi langa þróun beri vott um samdrátt eða stöðnun framundan og þá óvissu sem ríkir með efnahagshorfur.

Vaxandi líkur eru á stöðnun eða samdrætti inn á árið 2020, að mati greinenda Analytica.

Hagvísirinn samanstendur af sex undirliðum og þar af lækkuðu þrír liðir milli mánaða í apríl, en mestu munaði um lækkun ferðamannafjölda og vöruinnflutnings. „Langtímauppleitni annarra undirþátta er enn sterk en mikil óvissa sérstaklega í ferðaþjónustu. Þá eru áfram áhættuþættir í ytra umhverfi sem ógnað gætu hagvexti einkum tengdri stöðunni í alþjóðastjórnmálum,” segir í frétt á vef Analytica.

Hagvísirinn er vísitala sem gefur vísbendingu um efnahagsumsvif að sex mánuðum liðnum. Það er hlutverk vísitölunnar að veita skýra sýn á efnahagshorfur og vara tímanlega við viðsnúningi í efnahagsumsvifum. Vísitalan er reiknuð á grundvelli sömu aðferðafræði og annars staðar þar sem sambærilegar vísitölur eru reiknaðar en sérstaklega er tekið mið af verklagi OECD.

Leiðandi hagvísir Analytica er samansettur úr sex undirþáttum af mismunandi toga. Um er að ræða aflamagn, debetkortaveltu, ferðamannafjölda, heimsvísitölu hlutabréfa, innflutning og væntingavísitölu Gallup. Í apríl lækka allir sex undirþættir frá fyrra ár.” segir ennfremur á vef Analytica.