Leiðandi hagvísir Analytica hefur stefnt niður á við í hálft annað ár og er lækkunin sú mesta síðan árið 2008. Í tilkynningu frá ráðgjafafyrirtækinu Analytica sem birtir hagvísirinn eru vísbendingar um að hægja sé á lækkuninni en þó sé of snemmt að segja til um hvort botninum hafi verið náð. Lækkunin nú gefur til kynna að stöðnun eða samdráttur verði inn á árið 2020.

Þrír af sex undirliðum hagvísisins lækkuðu milli mánaða í júlí og mest áhrif til lækkunar hafði fækkun ferðamanna og minni vöruinnflutningur. Allir sex liðirnir lækka hins vegar frá sama tíma í fyrra. Í frétt Analytica segir hins vegar að langtímauppleitni sé enn sterk í mikilvægum undirþáttum en áfram séu áhættuþættir í ytra umhverfi sem gætu ógnað hagvexti einkum tengdri stöðunni í alþjóðastjórnmálum.

Leiðandi hagvísir Analytica er samansettur úr sex undirþáttum af mismunandi toga.  Um er að ræða aflamagn, debetkortaveltu, ferðamannafjölda, heimsvísitölu hlutabréfa, innflutning og væntingavísitölu Gallup. Hagvísirinn í júlí og tekur gildið 97,6, en sú tala á að gefa vísbendingu um framleiðslu sex mánuðum síðar þ.e. í janúar 2020. Hagvísirinn tekur gildið 100 þegar búist er við að landsframleiðsla sé í takt við langtímaleitni.