Olíuverð hefur haldið áfram að lækka í dag og hafði verð á Brent Norðursjávarolíu lækkað um 2,8% um klukkan fimm í dag og stóð í 82,41 dal fatið. Fatið af West Texas Intermediate olíu (WTI) hafði sömuleiðis lækkað um 2,82% og stóð í 76,56 dölum. Er verðið nú það lægsta sem það hefur verið frá því í október 2011, þegar WTI farið fór niður í 75,40 dali.

Olíuverð hefur lækkað um nær 30% frá því í júní þegar fatið af WTI olíu náði 108 dölum.

Verðlækkunin skýrist m.a. af því að fjárfestar óttast samdrátt í eftirspurn á heimsvísu vegna minnkandi hagvaxtar í Evrópu og Kína. Þá hefur framboð aukist töluvert vegna aukinnar olíuframleiðslu í Bandaríkjunum. Þá ákváðu stjórnvöld í Sádí-Arabíu að lækka verð á olíu, sem flutt er út til Bandaríkjanna, og er talið að það sé gert til að auka þrýsting á olíuiðnaðinn í Bandaríkjunum. Kostnaður við að dæla upp hverju fati af olíu er meiri í Bandaríkjunum en í Mið-Austurlöndum.