Úrvalsvísitala Kauphallarinnar lækkaði um 1,1% í dag og hefur ekki verið lægri frá því í mars á síðasta ári. Öll félög á aðalmarkaði kauphallarinnar lækkuðu í viðskiptum dagsins en veltan nam 6,7 milljörðum króna.

Versnandi verðbólgu og efnahagshorfur, stýrivaxtahækkanir og stríðið í Úkraínu hafa valdið titringi á hlutabréfamörkuðum víða um heim.

Úrvalsvísitalan stendur í 2.784 stigum og hefur lækkað um 10,7% undanfarinn mánuð og 18% frá áramótum.

Icelandair lækkaði mest allra félaga í Kauphöllinni eða um 4,4% í 73 milljóna viðskiptum. Icelandair hefur lækkað um 14,4% undanfarinn mánuð og standa bréf Icelandair nú í 1,71 krónu á hlut. Hitt flugfélagið á markaði, Play, lækkaði um 2,7% en þó ekki nema í um einnar milljón króna viðskiptum og standa bréf Play í 21,7 krónum á hlut.

Bréf Marel, stærsta félagsins í kauphöllinni lækkuðu um 0,3% en hafa lækkað um 17,7% frá áramótum.